Meistarafélag kjötiðnaðarmanna heldur nú í tólfta sinn fagkeppni meistarafélags kjötiðnaðarmanna. Keppnin og sýning fer fram 10. og 11.mars 2016 í Hótel-og matvælaskólanum í Kópavogi. En sama dag fer fram kynning á skólanum og iðngreinum sem þar eru kenndar.

Keppni fer fram í fimm flokkum:

Eldaðar vörur: Allar vörur sem eru soðnar svo sem slátur, álegg, hangikjöt ofl

Sælkeravörur: Allar hráverkaðar vörur eins og spægipylsur, þurrkaðir vöðvar ofl.

Soðnar pylsur: Allar soðnar pylsur.

Kæfa / Paté: Allar soðnar/bakaðar, kæfur/paté

Nýjungar: Allar vörur sem þér teljið vera nýjar á markaði, hvort sem eru soðnar, bakaðar eða hráar.

Aukakeppni: Eins og í síðustu keppni þá fer fram aukakeppni þar sem lax og silungur er aðalvaran. Keppt verður um besta reykta / grafna laxinn og um besta reykta / grafna silunginn.

Hver kjötiðnaðarmaður getur sent inn allt að 10 vörur með þeim fyrirvara þó að varan sé ekki eins að gerð, útliti eða nafni. Til að geta unnið titilinn „Kjötmeistari Íslands 2016” þarf meginuppistaðan í að minnsta kosti 3 vörum að vera úr mismunandi kjötflokkum.

Búgreinafélögin veita verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr lambakjöti, úr svínakjöti, úr nautakjöti, úr hrossakjöti og úr alifuglakjöti og þarf því að tilgreina hver sé megin kjöttegund í vörunni. Veitt verða verðlaun fyrir bestu vöruna úr flokknum; eldaðar vörur, sælkeravörur, soðnar pylsur, kæfur og paté og nýjungar. Þær 5 vörur sem flest stig hljóta frá hverjum keppanda telja í lokin til titils kjötmeistara íslands, en þann titil hlýtur eins og áður sá sem flest stig hlýtur í heildina. Allar vörur sem tilheyra kjötiðnaðinum eru gjaldgengar, eins og verið hefur í fyrri keppnum, hvort sem þær eru unnar úr kjöti, fisk, fuglum, innyflum eða allt það sem að menn telja að tilheyri faginu. Þær vörur sem allajafnan eru seldar ósoðnar eins og t.d. hangikjöt skulu samt sem áður vera soðnar áður en þær eru sendar í keppnina, það er til hagræðis og tímasparnaðar í dómarastörfum. Eins og í síðustu keppni er ætlunin að sjálf keppnin, þ.e. störf dómara, verði á sýningarsvæðinu sjálfu, en það hefur jafnan vakið mikla eftirtekt og dregið athyglina enn frekar að keppninni en áður hefur verið. Dómarar munu vera að störfum fimmtudag og föstudag allt eftir fjölda innsendra vara. Verðlaunavörur verða sýndar á svæði Meistarafélags kjötiðnaðarmanna í skólanum eftir að dómarar hafa lokið störfum sínum, og verða þær merktar keppanda og fyrirtæki.

Verðlaunaafhending mun fara fram á MFK deginum sem verður haldinn laugardaginn 12.mars á Hótel Natura (Loftleiðum) þar frá kl 14.00-16.00 sem MFK býður uppá léttar veitingar.

Búgreinafélögin hafa í gegnum tíðina verið okkar bestu samstarfsaðilar í þessari keppni og vonum við að svo verði áfram. Þau hafa komið að keppninni hvert með sínu lagi.

Landssamtök sauðfjárbænda veita ,,Lambaorðuna”,

,,Orðuna hljóti sá kjötiðnaðarmaður sem á bestu einstöku vöruna úr lambakjöti í fagkeppninni”

Landssamband kúabænda veitir viðurkenningu þeim kjötiðnaðarmanni sem á ,,bestu vöruna unna úr nautakjöti´. Félagið veitir farandverðlaunagrip og annan minni til eignar.

Svínaræktarfélag Íslands veitir viðurkenningu þeim kjötiðnaðarmanni sem á ,,bestu vöruna unna úr svínakjöti´´. Félagið veitir farandverðlaunagrip og annan minni til eignar.

Félag kjúklingabænda veitir viðurkenningu þeim kjötiðnaðarmanni sem á bestu vöruna unna úr ,,alifuglakjöti´. Félagið veitir farandverðlaunagrip og annan minni til eignar.

Kjötframleiðendur hf. veita verðlaun fyrir bestu vöruna unna úr,, folalda- eða hrossakjöti´´.

Flokkaverðlaun. Einnig hafa verið veitt verðlaun fyrir bestu vöru í eftirtöldum flokkum:

Eldaðar vörur * Soðnar pylsur * Sælkeravörur * Kæfa / paté * Nýjungar Aukakeppni: Besti reykti / grafni laxinn * Besti reykti / grafni silungurinn