Þátttaka – skráning Til þess að gæta hlutleysis í dómum fá vörurnar sérstakt skráningar- og keppnisnúmer og er varan því ómerkt keppanda eða því fyrirtæki sem viðkomandi keppandi starfar hjá þegar hún er dæmd. Þátttöku í keppnina þarf að tilkynna til ritara keppninnar Björk Guðbrandsdóttir fyrir 24.febrúar 2014. Sími: 860 9238 Netfang: bjorkfotos@yahoo.com

Þátttökugjald hvers keppanda er kr. 6.000 og síðan kr. 3.000 fyrir hverja vöru sem send er í keppnina.  Greiðsla vegna þátttöku greiðist inn á reikning Meistarafélagsins kt. 610590-1289 á reikningsnúmerið 300023 höfuðbók 13 útibú 319. Kvittun fyrir greiðslu verður svo send þátttakendum með keppnisgögnum.

Eftir að þátttakendur hafa tilkynnt ritara keppninnar um þátttöku sína og hversu margar vörur viðkomandi hyggst senda inn (sjá skráningarblað) og greitt þátttökugjaldið, er þeim sendar eftirfarandi upplýsingar í tölvupósti eða bréfleiðis allt eftir ósk hvers keppenda:

• Heimilisfang, sem varan skal sendast á. • Fylgiskjal, þar sem rita skal nafn vörunnar, en það nafn verður síðan skrifað á verðlaunaskjal vinni varan til verðlauna.  Við hverja línu á fylgiskjalinu er reitur og í hann eiga að koma upphafsstafir eftir því hvaða kjöttegund er uppistaðan í viðkomandi vöru.

• Keppnisnúmer,  sem skal setja á vöruna sjálfa.  Ef um spægipylsu eða álíka vöru er að ræða skal setja númerið á báða enda vörunnar og athugið að ómerkt vara fellur sjálfkrafa úr keppni. Ritari er því sá eini sem getur tengt saman nafn keppanda og keppnisnúmer.

* Rétt til þátttöku í fagkeppninni hafa allir kjötiðnaðarmenn hvort og hvar sem þeir starfa.

* Öllum er heimil þáttaka í aukakeppninni.

Keppnishaldarar líta svo á að sá kjötiðnaðarmaður sem skrifaður er fyrir þátttöku hafi sjálfur framleitt viðkomandi vöru. Í þessu sem öðru er höfðað til heiðarleika manna.

 

Umbúðir Umbúðir utan um keppnisvöruna skulu vera með öllu ómerktar, nema viðkomandi keppnisnúmeri.  Vörurnar skulu koma til keppninnar tilbúnar til neyslu.  Athugið að innsend vara skal ná að minnsta kosti einu kílói, ef um smærri einingar er að ræða skal senda það margar einingar að þær nái einu kílói.

Keppnisvörur Alls ekki má snyrta vörurnar á endum eða yfirborði né fjarlægja garnir, net eða álíka umbúðir. Vörur sem greinilega er búið að snyrta og eða rjúfa á einhvern hátt verða ekki dæmdar.

Dómastörf Vörurnar verða dæmdar þannig að allar vörur byrja með fullt hús eða 50 stig. Skoðuninni er skipt í fimm flokka sem eru eftirfarandi:  1.Ytra útlit, 2. Innra útlit, 3. Lykt og bragð, 4. Samsetning, 5. Verkun.

Hver flokkur inniheldur mest 10 stig, við hvern galla sem finnst í eða á vörunni eru stig dregin frá. Þó mismikið eftir eðli og mikilvægi gallans.  Þannig að finnist enginn galli í eða á vörunni heldur hún fullu húsi stiga og heldur sínum 50 stigum.

Verðlaunaskalinn skiptist þannig:  Gullverðlaun  49-50 stig  (0-1 mínusstig) Silfur   46-48 stig  (2-4 mínusstig) Brons   42-45 stig  (5-8 mínusstig)

Eins og sést á þessu geta margar vörur unnið til gull, silfur eða bronsverðlauna, allt eftir gæðum hverrar vöru fyrir sig.

Í keppni sem þessari skiptir ekki höfuðmáli hvort varan er skreytt sérstaklega, því það gefur ekki auka stig en getur orðið til þess að þeim fækki, ef gallar eða óvönduð vinnubrögð finnast í, á eða undir skreytingunni.

Kjötiðnaðarmaður þeirrar vöru sem hlýtur verðlaun fær skjal því til staðfestingar, þar sem fram kemur nafn hans og vörunnar og þess sem skráður er greiðandi keppnisgjalds, en einnig fylgir verðlaunapeningur.  Fyrirtæki verðlaunahafans er heimilt að nota verðlaunin til auglýsinga og kynningar á viðkomandi verðlaunavöru og/eða viðkomandi kjötiðnaðarmanni fram að næstu keppni.

Framleiðandi má ekki breyta nafni, útliti, gerð eða samsetningu vöru á nokkurn hátt eftir keppni, þó eru skreytingar sem eru sérstaklega unnar fyrir keppnina undanskildar.

Viðurlög við brotum á reglum um notkun verðlauna gætu hugsanlega verið þau að aðstandendur keppnirnar gefi út yfirlýsingu í fjölmiðlum um misnotkun verðlauna.